Árið 1995 keyptu þau Knútur og Helena Friðheima, ákveðin í að flétta saman þær starfsgreinar sem þau höfðu menntað sig í; hestamennsku og garðyrkju. Þá voru á staðnum tvö gróðurhús og stórt tómt íbúðarhús – en ylrækt hófst í Friðheimum árið 1946. Síðan Knútur og Helena hófust handa við uppbygginguna eru liðin nokkur ár og nú iðar allt af lífi, enda eru þau framtakssamt fólk! Uppbyggingartíma Friðheima frá því að þau hófust handa fram til dagsins í dag má skipta í þrjú tímabil:
Á árunum 1995-2001 byggðu þau 1.174 fermetra gróðurhús og voru í hefðbundinni ræktun, gerðu upp eldri hús og nýttu til ræktunar. Þessi fyrstu ár fóru í að koma sér fyrir og móta stefnuna.
Á árunum 2002-2006 tóku þau þá ákvörðun að fara í heilsársræktun í tómötum, settu upp lýsingu í eldri hús og byggðu nýtt 1.000 fermetra gróðurhús með fullri lýsingu. Þetta var jafnframt tími mikillar upplýsingaöflunar og endurmenntunar, m.a. með tíðum heimsóknum til Finnlands og góðu samstarfi við þarlenda ráðunauta, en Finnar eru mjög framarlega á sviði lýsingar í grænmetisræktun.
Árin 2007-2013 var svo komið að uppbyggingu á hestamiðstöð og ferðaþjónustu í Friðheimum. Byggt var hesthús fyrir 20 hross með móttökuaðstöðu og útisýningarsvæði með 120 manna áhorfendastúku. Þá var sett á markað hestasýning fyrir ferðamenn og fljótlega var einnig farið að bjóða upp á heimsókn í gróðurhúsin.
Árið 2011 var garðyrkjustöðin stækkuð um 60% og gestastofa byggð upp í gróðurhúsunum.
Veturinn 2012-2013 var unnið að þróun vörulínu og matarminjagripa úr tómötum og gúrkum.
Árið 2013 var Litla Tomatbúðin byggð við gestastofuna. Þar eru matarminjagripirnir seldir og haustið 2014 var síðan sett í loftið vefverslun þar sem hægt er að kaupa og fá sent góðgætið úr Friðheimum.