Garðyrkjan

Friðheimabændur leggja áherslu á að rækta tómata með mestu bragðgæðum
sem völ er á og í góðri sátt við náttúruna. Tómatarnir eru ræktaðir allt árið um kring með fullkominni tækni á vistvænan hátt þar sem græn orka, tært vökvunarvatn og
lífrænar varnir gera tómatana ferska og heilsusamlega.

Garðyrkjan

Knútur og Helena hafa allt frá upphafi búskapar síns í Friðheimum sérhæft sig í tómataræktun. Þau vilja gjarnan auka fjölbreytni tómata á íslenskum markaði og hafa því af og til prófað nýjar tegundir. T.d. voru þau fyrst til að rækta konfekt- og plómutómata í heilsársræktun hér á landi og nýjasta afurðin er hinir gómsætu Piccolo-tómatar. Friðheimabændur einsettu sér fljótt að rækta tómatana með mestu bragðgæðum sem völ er á og í góðri sátt við náttúruna. Tómatarnir eru nú ræktaðir allan ársins hring með fullkominni tækni á vistvænan hátt þar sem græn orka, tært vökvunarvatn og lífrænar varnir gera tómatana ferska og heilsusamlega.

Knútur og Helena hafa leitast við að fylgjast vel með í faginu og hafa farið í fjölda fræðsluferða til nágrannalandanna til þess að kynna sér ræktunaraðferðir, byggja upp sambönd og sækja sér þekkingu. Þau hafa lagt mikinn metnað í framleiðsluna og uppskorið eftir því. Þau fengu hvatningarverðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands 2009 og voru kosin ræktendur ársins af Sölufélagi garðyrkjumanna árið 2010. Þá voru þeim veitt hvatningarverðlaun Ferðaþjónustu bænda 2011 og Landbúnaðarverðlaunin fyrir frumkvöðlastaf og fyrirmyndarbúskap árið 2014.


Ræktunaraðferð

Vistvæn ræktun felur í sér að nota lífrænar varnir í baráttu við meindýr. Þar er rántítan Macrolophus pygmaeus öflugasta vörnin, en hún étur öll helstu meindýr sem þrífast á tómataplöntunum. Góður ræktandi reynir að stýra hita, raka og vökvun þannig að plönturnar þrífist vel og skili einnig hámarksuppskeru.

Í uppeldishúsinu er fræjunum sáð og plönturnar vaxa þar fyrstu sex vikurnar í pottum með sjálfvirkri vökvun. Þegar plöntunum er plantað út í gróðurhúsin eru þær að blómstra á fyrsta klasa, en sjö til átta vikur til viðbótar líða þar til fyrstu tómatarnir roðna. Í Friðheimum eru tómatarnir ræktaðir í torfi og er skipt um plöntur tvisvar á ári. Þar sem biðtíminn eftir uppskeru er langur, er notað svokallað milliplöntunarkerfi. Það þýðir að nýjum plöntum er plantað inn á milli þeirra eldri og því vaxa þær hlið við hlið í sjö til átta vikur. Þegar síðustu tómatarnir eru tíndir af gömlu plöntunum eru þeir fyrstu á nýju plöntunum að roðna. Sniðugt – ekki satt?

RæktunaraðferðirRæktunaraðferðirRæktunaraðferðirRæktunaraðferðirRæktunaraðferðirRæktunaraðferðirRæktunaraðferðir

Ríkulegar náttúruauðlindir hjálpa til

Gróðurhúsin eru hituð upp með heitu vatni, sem nóg er af í jörðinni. Borholan er 200 m frá gróðurhúsunum og vatnið er um 95°C þegar það kemur inn í húsin. Til að fá sem mest af birtu sólar inn er aðeins 4 mm gler á milli innihita og útihita og því þarf mikið magn af heitu vatni, eða um 100.000 tonn á ári! Kalda vatnið sem vökvað er með er sama vatn og drukkið er á heimilinu. Þar sem tómatar eru um 90% vatn skiptir miklu máli hversu gott vatn plantan fær. Á Íslandi er nóg af „grænu rafmagni“, sem búið er til úr fallorku kalda vatnsins og jarðgufu. Vaxtarlýsing er notuð til að tryggja framleiðslu allan ársins hring. Koltvísýringur unninn úr náttúrulegri jarðgufu er notaður til að auka ljóstillífun.

Ríkulegar náttúruauðlindir hjálpa tilRíkulegar náttúruauðlindir hjálpa tilRíkulegar náttúruauðlindir hjálpa tilRíkulegar náttúruauðlindir hjálpa til

Fróðleiksmoli

Fræ

Vissir þú að uppskeran í Friðheimum er að meðaltali eitt tonn á dag? Ársuppskeran er um 370 tonn!


Húsakostur

Garðyrkjustöðin er samtals um 5.000 fermetrar undir gleri, þar af um 4.200 ræktunarfermetrar, 300 fermetrar fyrir uppeldisplöntur, 300 fermetra gestastofa og um 200 fermetrar undir pökkun og aðra aðstöðu. Öll gróðurhúsin eru með heilsárslýsingu og eru byggð árin 1986, 1996, 2004 og 2011. 

Hesthúsið var byggt 2006 og rúmar 20 hross í stíum. Reiðvöllurinn var gerður 2007 og svo bættist hænsnahöllin svokallaða við árið 2010 og rúmar hún um tíu hænur! 

Friðheimahjáleiga er raðhús með fimm íbúðum sem var byggt árið 2008 fyrir starfsfólk Friðheima.

HúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakosturHúsakostur

Tæknin léttir undir

Í hverju gróðurhúsi er stýritölva sem stýrir hita, raka, kolsýrugjöf og lýsingu. Stýritölvan er tengd við áburðarblandarann sem vökvar samkvæmt ákveðinni forskrift. Veðurstöð uppi á þaki gefur upplýsingar um vindstyrk, vindátt, hitastig og birtu. Þegar sólin sýnir sig og inngeislun nær ákveðnu marki slokknar á ljósunum – og kviknar svo aftur þegar þarf. Allt tengist þetta við móðurtölvuna, sem er tengd Netinu. Þannig geta Friðheimahjónin farið inn á Netið hvar sem þau eru stödd í heiminum, fylgst með stöðunni, breytt gildum og stjórnað vökvun.

Tæknin léttir undir í FriðheimumTæknin léttir undir í FriðheimumTæknin léttir undir í FriðheimumTæknin léttir undir í Friðheimum

Vakinn Certified

clean-safe

SAF Award 2017

Tripadvisor - Certificate of exellence 2019

Friðheimar hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2019